Robert Louis Stevenson
Þó svo að Robert Louis Stevenson væri með vinsælustu rithöfundum sinnar samtíðar og sé enn í hópi 25 mest þýddu rithöfunda heimsins mátti hann þola að vera nánast útilokaður úr samfélagi virtra rithöfunda skömmu eftir að hann lést og fram á síðari hluta 20. aldar. Segir það kannski meira um bókmenntafólkið sem stýrði þeirri þögn en hann sjálfan. Þó var hann dáður af mörgum og hafði áhrif á höfunda eins og Jorge Louis Borges, Ernest Hemingway, Rudyard Kipling, Vladimir Nabokov og Jóhann Magnús Bjarnason.
Í dag hefur staða hans innan bókmenntanna verið endurskoðuð og Stevenson er kominn á stall með höfundum á borð við Joseph Conrad og Henry James, þar sem hann á heima. Það mun seint fenna í fótspor þessa frábæra höfundar sem gaf okkur sögur eins Treasure Island (Gulleyjuna) og The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde. Já, Langi Jón Silfri lifir áfram og mun gera um ókomna tíð.
Robert Louis (Balfour) Stevenson fæddist í Edinborg í Skotlandi 13. nóvember árið 1850. Faðir hans var vel megandi verkfræðingur sem sérhæfði sig í að hanna vita. Móðurafi hans var prófessor í heimspeki og klerkur og stóðu foreldrar hans vel fjárhagslega.
Móðir hans átti við heilsuleysi að stríða; var með viðkvæm lungu og hefur sennilega þjáðst af berklum. Virðist sem Robert hafi erft þann sjúkdóm, en hann átti eins og hún við heilsuleysi að stríða alla sína ævi. Þoldi hann illa kulda og á veturna var það gjarnan hans hlutskipti að liggja undir sæng og láta lesa fyrir sig.
Á sumrin og þegar heitt var í veðri var hann hvattur til að leika sér úti í þeirri von að það myndi styrkja hann. Virtist sem þessi umhyggja bæri góða raun því þegar hann var ellefu ára gamall var hann orðinn mun hraustari og þá var ákveðið að reyna að búa hann undir háskólanám. Var hugmyndin að hann skyldi feta í fótspor föður síns og læra að hanna vita.
Ekki var þó hugur hans alls kostar við námið og í staðinn fyrir að læra eyddi hann löngum stundum við lestur; las gjarnan Shakespeare, Walter Scott, John Bunyan og þá var sögusafnið Þúsund og ein nótt í sérstöku uppáhaldi hjá honum.
Þegar hann var sautján ára gamall innritaðist hann í Edinborgarháskóla og hóf verkfræðinám. Kom fljótt í ljós að það átti ekki vel við hann og leiði hans á því námi virtist hafa slæm áhrif á heilsu hans. Það eina sem hann langaði til að gera var að fást við ritstörf. Faðir hans sem var bæði strangur og ákveðinn maður var í fyrstu ekki tilleiðanlegur að leyfa honum það, en á endanum sá hann að drengnum varð ekki þokað og ákvað að gefa eftir.
Hann vildi þó að Robert lyki háskólaprófi í lögfræði áður en hann reyndi fyrir sér sem rithöfundur. Robert samþykkti það og 25 ára gamall útskrifaðist hann sem lögfræðingur. Námið sem var honum erfitt gekk nokkuð nærri heilsu hans.
Að námi loknu lagðist hann í ferðalög og leitaði að stöðum þar sem loftslagið hentaði honum betur. Þá heimsótti hann ýmis heilsuhæli. Kynntist hann ýmsu fólki á þessum ferðum sínum sem átti eftir að verða hans bestu vinir, s.s. Sidney Colvin ævisagnaritari hans og Leslie Stephen gagnrýnandi og faðir Virginu Woolf. Þá hitti hann líka Fanny Vandegrift Osbourne sem seinna átti eftir að verða eiginkona hans. Öðrum þræði hélt hann sér uppi með því að skrifa greinar um þessi ferðalög og selja þau blöðum og tímaritum. Voru þetta mikilvæg ár í lífi Stevensons. Hann kynntist ólíkum menningarheimum og þá voru greinaskrifin góð þjálfun fyrir verðandi rithöfund.
Þegar Stevenson hitti Fanny Vandegrift Osbourne í París árið 1876 var það ást við fyrstu sýn. Fanny sem var við það að skilja við mann sinn hélt skömmu síðar aftur til Bandaríkjanna en hún bjó í San Francisco. Þar veiktist hún og þegar Stevenson frétti það ákvað hann að halda á hennar fund. Ráðlögðu vinir hans honum frá því, bæði sökum þess að hann átti varla efni á því og þá hlyti strangt ferðalagið að ganga nærri heilsu hans. Honum varð þó ekki haggað. Sigldi hann first til New York og hélt þaðan landleiðina til Kaliforníu. Þegar hann var kominn til Monterey hafði heilsu hans hrakað svo mjög að honum var vart hugað líf. Var honum hjúkrað af nokkrum góðhjörtuðum bændum.
Í desember 1879 var hann búinn að ná sér nægilega mikið til að komast til San Francisco. Þar dró hann fram lífið í nokkra mánuði við illan leik og lifði eingöngu á greinaskrifum. En brátt tók heilsu hans að hraka á ný. Skilnaður Fannyar við mann sinn var þá loks frágenginn og hún hélt strax til hans og hjúkraði honum aftur til heilsu. Loks þegar faðir hans frétti af veikindum hans sendi hann honum fé og hagur Stevensons fór aftur að vænkast.
Árið 1880 gengu hann og Fanney svo í hjónaband. Það sama ár hélt með konu sína og son hennar af fyrra hjónabandi aftur til Englands.
Heilsa Stevensons gerði það að verkum að hann gat eiginlega ekki stundað neina hefðbundna vinnu; það eina sem hann gat raunverulega gert til að afla sér og sínum viðurværis var að skrifa og það gerði hann svikalaust. Hann var heldur ekki bundinn við einn ákveðinn stað við skriftirnar og því ferðuðust þau hjónin töluvert en Stevenson var stöðugt að leita sér að stað sem hentaði veikindum hans. Var hann ýmist í Skotlandi eða Frakklandi. Gat hann stundum haldið veikindum sínum niðri en hóstaði blóði þess á milli. Árið 1883 kom skáldsagan Treasure Island út og varð hún strax gríðarlega vinsæl. Hafa vinsældir hennar haldist fram á þennan dag og ein aðalpersónan Langi-Jón Silfri lifir góðu lífi í hugum okkar flestra. Við þetta vænkaðist fjárhagur hans til muna. Í kjölfarið skrifaði hann margar af sínum kunnustu skáldsögum. The Black Arrow kom út 1884, Prince Otto 1885, The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde 1886 og Kidnapped 1886. Auk þess skrifaði hann á þessum árum margar styttri sögur og ljóð fyrir unga lesendur.
Nokkur þáttaskil urðu í lífi hans þegar faðir hans lést árið 1887. Þá erfði hann töluvert fé og það ásamt með ágætum ritlaunum gerði það að verkum að hann gat leyft sér mun meira en áður. Í kjölfarið hélt hann með móður sína og fjölskyldu aftur til Bandaríkjanna og árið 1888 leigði hann skútu og sigldi um Suður-Kyrrahafið. Fannst honum breytt loftslagið og sjávarloftið gera sér gott. Dvaldi hann um tíma á ýmsum eyjum í Suður-Kyrrahafinu. Einkum ílentist hann á Hawaii eyjaklasanum þar sem hann gerðist sérstakur vinur konungs eyjarskeggja. Að lokum keypti hann sér gríðarstórt landsvæði og settist að á eynni Upolu sem er ein af eyjunum í Samóa eyjaklasanum. Kom hann sér upp stórum búgarði sem hann kallaði Vailima sem merkir fimm fljót. Tóku eyjarskeggjar honum afar vel og fljótlega var hann allt í öllu þar á eynni. Var leitað til hans um alls kyns ráð og á endanum var hann farinn að taka þátt í stjórnmálunum þar en eyjarnar sem höfðu lent undir Hollendingum árið 1722 höfðu þá um tíma verið bitbein nokkurra stórvelda. Skrifaði hann töluvert um stjórnarfarið á eyjunum og sakaði erlenda erindreka um að fara illa með innfædda. Allan þennan tíma hélt hann áfram að skrifa sögur.
En árið 1894 tók heilsu hans að hraka aftur og hann átti orðið erfitt með að skrifa. Hélt hann um tíma að sköpunargáfan væri runnin honum úr greipum. En hann þráaðist við og hóf að skrifa Weir of Hermiston, sögu sem gerðist á tímum Napóleon styrjaldanna. Kveikti sú saga aftur í honum. En þá tóku örlögin í taumana og 3. desember það ár féll hann óvænt niður er hann var að taka upp vínflösku heima hjá sér. Hafði hann fengið heilablæðingu og dó nokkrum klukkustundum síðar. Var hann einungis 44 ára gamall.
Hann var grafinn þar á eynni uppi á háum kletti með útsýni yfir hafið og voru það eyjaskeggjar sem önnuðust útför hans.
Robert Louis Stevenson naut mikilla vinsælda meðan hann lifði og allt fram að fyrri heimsstyrjöld, en nýir straumar í bókmenntum sem spruttu upp í kjölfar styrjaldarinnar gjaldfelldu verk hans og úthýstu honum úr allri alvarlegri bókmenntaumræðu. Voru svo mikil brögð á þessu að verk hans voru tekin úr öllum kennslubókum og uppflettiritum um tíma. Á seinni hluta 20. aldar sáu bókmenntamenn þó að sér og Stevenson hlaut uppreisn æru. Nú er hann settur á stall með höfundum á borð við Joseph Conrad og Henry James og hvað sem öllum bókmenntafræðingum líður þá er Stevenson í hópi 25 mest þýddu rithöfunda heimsins og skýtur þar höfundum eins og Charles Dickens, Oscar Wilde og Edgar Allan Poe ref fyrir rass.